mánudagur, mars 31, 2003

31.mars 2003

Stuðmundur varinn.....

Jæja, hann Stuðmundur ákvað að gagnrýna Erp Eyvindarson.. æjæj... það var aldeilis drullað yfir hann á kommenntum og shout out!!!

Ég vil byrja á því að segja það, þar sem ég vil ekki fá þann skít yfir mig sem Stuðmundur fékk yfir sig, að ég hef ekkert á móti Erpi eða öðrum röppurum, þetta er bara fólk sem er að skapa sér lífsstíl eins og allir aðrir. Reyndar er ég rappfan og á t.d alla diskana með Busta Rhymes og finnst Eminem góður, en það er eimmitt álitið sem ég hef á þeim. Stuðmundur hefur annað álit og lét það í ljós á blogginu sínu... það er ekki honum að kenna að það var látið inn á tilveruna. Mest af þessu fólki sem er að skrifa þarna inn, er að tala um að hann sé landsbyggðarhálviti og annað í þeim dúr.... hey news flash.... Stuðmundur býr í Reykjavík... það bara vill svo til að hann nefndi Ísafjörð í blogginu sínu, ég man ekki alveg hvort hann bjó þar, en það skiptir heldur ekki máli, málið er að fókið er að sýna landsbyggðarfordóma með því að kalla hann þetta og eru þau þá eitthvað skárri?? Stuðmundur er þó allavega að gagnrýna manneskju sem hefur verið í sviðsljósinu, og hann er að viðra sínar skoðanir. Þetta fólk er bara að drulla yfir hann með fordómum út í landsbyggðina, og ef hann er utan af landi, þá getur hann ekkert að því gert. Það vill líka svo til að ég þekki Stuðmund persónulega, það er meira en allir þeir sem eru að dónaskapast inni á hans bloggi geta sagt, og hann er ein yndislegasta persóna sem ég hef kynnst og mér líkar ekki hvað fólk er að segja um hann þarna inni. Mér finnst allt í lagi að hann viðri skoðanir sínar á Erpi eins og ég viðraði mínar á Leoncie á sínum tíma!!! Það bara vildi svo óheppilega til fyrir hann að flestir voru ósammála honum, meira segja ég, en ég ber þó allavega virðingu fyrir því að fólk hafi álit á hlutunum, og fer ekki að drulla yfir ALLT sem það hefur gert út frá þeim grundvelli að vera ósammála þeim á einni skoðun.
Svo er líka verið að tala um það að hann spari nú ekki stóru orðin út af því að hann felur sig á bak við dulnefni bloggsins!!!! Ég get ekki betur séð en að flestir, ef ekki allir, þar á meðal manneskjan sem kom með þetta komment, feli sig á bak við dulnefni, vegna þess að þau eru að láta ansi mörg stór orð falla um manneskju sem að þau þekkja akkúrat ekki neitt!!!

Ég varð bara að minnast aðeins á þetta, þar sem mér líka ekki svona óheyrilegur dónaskapur, og ég vil bara biðja fólk um það, að ef það hefur ekkert annað en slæmt um manneskju að segja, að halda því fyrir sjálft sig, eða allavega hafa bein í nefinu til að skrifa það undir sínu eigin nafni í stað þess að fela sig bak við dulnefni!!!

Annars vona ég bara að þið eigið góðann dag :)

Hrafnhildur
Móðguð fyrir hönd Stuðmunds hins mikla

laugardagur, mars 29, 2003

29.mars 2003

Ég ætla að nýta mér þann miðil sem bloggið er og óska hér með eftir meðleigjanda... Hann Steinbjörn er að flytja út og frá og með 1. maí er herbergi laust til leigu hér á Seljaveginum. Þetta er ágætis herbergi, um 15 fermetrar, og leigist á 25000.- Trygging er einn mánuður fyrirfram sem borgast til baka þegar flutt er út. Kosturinn sem fylgir þessu er náttlega sá að þá fær einhver heppinn að búa með MÉR, sem er nú ekki dónalegt, enda er ég af mörgum talin ákaflega skemmtileg manneskja.....

Já, hann Steinbjörn er sumsagt að flytja út, ætlar að eyða sumrinu í að kokka ofan í túristana uppi á öræfum. Ég var farin að taka þetta ákaflega persónulega og farin að halda að ég væri ómöguleg í sambúð, en svo náttlega fattaði ég að ÞAÐ getur ekki verið ástæðan!!!!

Ég hef eiginlega ekki tíma til að blogga meira, en ég vona að ég fái einhver viðbrögð við þessu gulli slegna tilboði, en þið getið svarað í shout out, gestabókinni eða sent mér E-mail, en þau eru hérna hægra megin á síðunni.

Þangað til....

Hrafnhildur
Ein á báti

fimmtudagur, mars 27, 2003

27.mars 2003

"Smá" sýnishorn á því hvernig fer fyrir mér ef ég fer ekki að taka ræktina alvarlega.......

þriðjudagur, mars 25, 2003

25.mars 2003

Ja nú er ég svo aldeilis rasandi bit!!!!
Ég fór út að reykja áðan með vinnufélögunum og við náttlega fórum að ræða aldur og fyrri störf sem leiddi inn á umræðu um lífeyrissjóðsgreiðslur. Í þeim umræðum komst ég að því að við sem borgum skatt af þeim aurum sem renna í lífeyrissjóðinn okkar um hver mánaðarmót, þurfum að borga skatt af honum aftur þegar við erum orðin gömul, hrum og á leiðinni til Kanarí!!!!!! Þetta fannst mér ekki fallegt að heyra, og sem nöldurkerling framtíðarinnar tek ég minn hatt og minn staf og er flutt til hins sykurhúðaða fríríkis Sviss!!! Mér finnst svona hálfgerður Montgomery Burns stíll á þessu, endalaust að blóðmjólka úr saklausum almenningnum. Ætli skattstjóri fari ekki í það næst að safna fötum úr feldi dýra í útrýmingarhættu.... hver veit. Það sem ég skil ekki er að við skulum láta bjóða okkur þetta. Við borgum af þessu skatt þegar við leggjum inn, og aftur þegar við tökum út, og engum finnst neitt athugavert við það!!! Kannski er ég eitthvað að misskilja þetta, og ríkisskattstjóri sé ljúfur sem lamb og allir beri hag gamla fólksins í landinu fyrir brjósti, en ef þetta er ekki misskilningur þá er ég að hugsa um að fara að safna frekar lífeyrissjóðnum mínum saman undir koddann minn og taka það svo bara fram, alveg óskert í ellinni.

En þetta eru nú bara svona pælingar sem ég ákvað að deila með ykkur. Hafið það gott og leggið fyrir til mögru áranna:)

Hrafnhildur
Góð við gamla fólkið

mánudagur, mars 24, 2003

24.mars 2003

Haldiði að tölvugúrúið ég hafi ekki verið að læra að setja myndir inn á bloggið mitt (ástarþakkir Valla dúlla). Bara svona til að prófa set ég eina hér af manninum sem virðist hafa notað tækifærið og kysst þær allar (enda mjög gott tækifæri).

24.mars 2003

Jæja, þá er óskarinn um garð genginn með öllum þeim Prada kjólum og Armani jakkafötum sem venjulega fylgja karlgarminum. Ég líklegast vakti í alla nótt yfir herlegheitunum, því mér finnst fátt skemmtilegra en að fylgjast með fína og fræga fólkinu. Þetta bansetta stríð setti sitt mark á Óskar litla í byrjun því að fáeinar hræður skakklöppuðust inn rauða dregilinn sem er venjulega stjörnum stráður og mér persónulega finnst ég snyrtilega svikin, því að mér finnst rauði dregillinn eiginlega skemmtilegasti parturinn af hátíðinni. En hundsbit er hundsbit og maður verður bara að taka því!! Mikael Moore fékk verðlaun fyrir bestu heimildarmyndina, og í þakkarræðunni tók hann sig til og gerði sig að óvinsælasta manni í húsinu með því að líkja Bush (eða Runna eins og ég kýs að kalla hann), kosningum hans og stríðinu sjálfu við vísindaskáldskap, og sagði að hann vildi frekar lifa í raunveruleikanum. Ræðuna endaði hann svo með því að segja "shame on you, Bush" eða eins og það hljómar upp á hið ylhýra "skamm skamm Bush". Háttvirtur forseti hefur nú samt örugglega ekki heyrt til hans fyrir baulinu og púinu frá salnum.
Halle Berry tilkynnti leikara ársins, en Adrien Brodie hreppti þann titil. Hann hefur örugglega haldið að Halle væri í verðlaun (enda í gylltum kjól, mjög keimlíkum átfittinu sem Skari klæðist við þetta tilefni) og slummaði hana svona líka pent, en svo hefur hann örugglega áttað sig, kappinn, og ákvað að bjarga andlitinu með hjartnæmri ræðu um mömmu sína, stríðið og guð....

Eminem vann óskar fyrir besta lagið, en hann varð nú að halda uppi heiðri sínum sem uppreisnargjarn rappari og neitaði að mæta, og lét besta vin sinn, hann Hrokkinkoll taka við verðlaununum fyrir sig.

En annars skemmti ég mér bara vel við að glápa og lifi í voninni um að vera einhverntímann viðstödd (maður má alveg láta sig dreyma...)

Hrafnhildur
Vonast eftir Óskar

sunnudagur, mars 23, 2003

23.mars 2003

Þá er þynnka dauðans að hellast yfir.... Kvöldið í gær var tekið með trompi heim hjá matmóður Sæunni, en hún bauð okkur í þennan líka dýrindis kvöldverð. Gummi sá um forréttinn, humarsúpu a la Gudmundurva, en aðalrétturinn var með þýsku ívafi... rauðvínslegið lambalæri kaffært í grænmeti, kartöflu "knuddle", en það er nokkurskonar kartöfludeig sett í viskastykki og soðið í potti í klukkutíma og með þessu var tómat-baunaspýru eitthvað ógisslega gott. Eftir þessi herlegheit var svo spilað og drukkið fram á eldrauða nótt. Niðurstaða: yndislegt kvöld :)

En jæja, að alvöru lífsins... Óskarinn í kvöld!!!! Minn heittelskaði Guðmundur fjárfesti nú líklega í áskrift að stöð 2 í tilefni dagsins og fór í það stórverkefni að tengja draslið, en í hita leiksins náði hann að sprengja öryggi í lyklinum og er nú í leiðangri upp á krókháls til að verða okkur út um annað stykki. Margrét systir var nú að tala um að einhver hryðjuverk yrðu nú framin í kvöld, en við látum nú enga svoleiðis svartsýnisseggi slá okkur út af laginu.

Ég er eitthvað svo ljót, leiðinleg og andlaus, að ég ætla ekki einusinni að reyna að leggja það á ykkur að lesa bullið í mér. Ég bið ykkur bara að strjúka kviðinn og horfa á óskarinn.

Þangað til næst....

Hrafnhildur
Þunn á óskarnum

föstudagur, mars 21, 2003

21.mars 2003

Ég hef mikið verið að spá í það fólk sem ég kýs að kalla "krúsídúllukynslóðina". Það er ungt fólk sem oftar en ekki er í MH. Ástæðan fyrir því að það er kallað krúsídúllukynslóðin er sú að þau eru lítil, hoppa um í lífsgleði sinni, en umfram allt þá klæða þau sig vægast sagt furðulega!!! Ég hitti eitt afsprengi þessarar kynslóðar í strætó í dag. Hún var klædd í græna kápu, svart pils, rauðar sundbolaefnis leggings sem náðu niður á miðja kálfa og undir þeim var hún í svörtum blúndusokkabuxum!!! Í gær stóð ég fyrir utan vinnustaðinn minn þegar ein labbaði framhjá. Hún var í þröngum gallajakka, örugglega frá því um 1975, svörtu pilsi með grænum og gulum blómum, rauðum nælonsokkabuxum og við þetta allt var hún í argandi bláum strigaskóm!!! Ég hef oft verið hugsa um það hvort það væri ekki þægilegt að vera partur af þessum kúltúr... að vera einhvernveginn alveg sama hvernig maður er klæddur, maður þarf aldrei að hafa áhyggjur af því að detta úr tísku og meira að segja, þeim mun eldri og hallærislegri fötin manns eru, þeim mun betra. Svo þarf maður ekkert að spá í samsetningunni, það er bara töff að vera eins og gangandi litaspjald... og svo ef maður er t.d uppiskroppa með hreina sokka, nú þá fer maður bara í fingravettlinga á fæturna!!!

Skilyrði sem þarf að uppfylla til að vera krúsídúlla:
1. Klippa sig sjálf/ur, ef maður getur það ekki, þá á maður að tala við litla frænda sinn, sem vegna ofvirkni er sprautaður niður á rítalíni.
2. Aldrei að vera í 2 flíkum sem eru í sama-svipuðum lit.
3. Helst að vera, eða hafa verið í MH.
4.Versla ekki neinsstaðar annarsstaðar en í Spútnik og Rauðakrossinum.
5. Láta ekki einusinni ná sér dauðum með sama naglalakk á 2 nöglum (manni er fyrirgefið ef það er tippex)
6. Vera einhverskonar listamaður (má samt aldrei mála venjulegar landslagsmyndir).
7. Eiga a.m.k einn gamlann og ljótann stofusófa (helst keyptann í kolaportinu).
8. Helst að búa í gamalli íbúð, ekki skemmir að eldhúsið sé með mósíkflísum af síðan ´68.
9. Eiga að minnsta kosti einn alklæðnað af háaloftinu hjá ömmu.
10. Helst vera með dúska eða annað dúllerí á skónum sínum.

Með þessum orðum kveð ég ykkur, og bið ykkur vel að lifa...

Hrafnhildur
Leiðinlega venjuleg

fimmtudagur, mars 20, 2003

Aftur 20.mars 2003

Ég hef stundum verið að spá í því hvað var auðvelt að vera barn, þó að manni fyndist það ekki þá. Áhyggjur var hugtak sem maður skildi ekki og klinkið úr vasanum hans pabba nægði fyrir jólagjafainnkaupunum. Ég var mjög þrjóskt barn... ég gat ekki sagt "ess" fyrr en ég var fjögurra ára og eftir að ég náði tökum á þessari list sagði ég bara "ess" í Reykjavík heilllengi, bara svona til að nota það spari, heima í hversdagsleikanum notaði ég mitt vanalega "eþþ". Ég gekk í brúnum samfesting með appelsínugulu stroffi upp á hvern einasta dag frá 4 -5 ára aldur af því fyrir mér var þetta fallegasta flík norðurlandanna, mamma þurfti að spretta stroffunum upp og lengja þau því að hann var löngu hættur að passa. Hann var orðinn svo þunnur að hann var ónothæfur sem borðtuska þegar ég fékkst til að hætta að nota hann. Þegar ég var 3ja ára átti ég gráar flauelsbuxur sem ég harðneitaði að fara í af því mér fannst þær svo "barnalegar", og ef ég var sett í þær gegn mínum vilja, nú þá pissaði ég bara á mig. Ég var líka mjög listrænt barn... þegar ég var C.A 3ja ára fékk ég gefins peysu sem mér fannst rosalega flott. Ég fékk þá snilldarhugmynd að bæta aðeins á glæsileikann með því að klippa þríhyrninga framan á hana og gera hana soldið spes, af því að fleiri en ég áttu svona peysu. Þessi listræna tjáning fór eitthvað fyrir brjóstið á móður minni og peysunni var hent, og ég náttlega sármóðgaðist og gerði mér grein fyrir því að ég yrði alltaf misskilin sem listamaður. Það sannaði sig líka 2 árum seinna þegar ég tók uppáhalds vaxlitinn minn, fagurfjólubláann og ógurlega fallegann og teiknaði mín sérstæðu listaverk á hvíta vegginn inni í herberginu mínu.. Pabbi varð bara reiður og málaði yfir það. Þessi listaverk hefðu kannski orðið til þess að húsið hækkaði í verði en hann var örugglega ekki að hugsa um það!!!

En það eru margar minningar sem fólk á mínum aldri eiga sameiginlegar þegar það hugsar til baka.....
...það var hægt að kaupa bland í poka fyrir 20 krónur.
...ekkert sjónvarp á fimmtudögum og mánuð yfir sumarið.
...það var ekkert sem pabbi gat ekki gert.
...kossinn hennar mömmu hafði meiri lækningarmátt en allt annað.
...maður gat verið ber á ofan á sumrin, þó maður væri stelpa.
...eldri systkinin vissu allt.
...ef eldri systkinin vissu það ekki var pottþétt að mamma vissi það.
...stelpum fannst strákar asnar.
...strákum fannst stelpur asnar.
...bangsinn Bombi var tryggasti vinurinn.
...tíkall var stórfé.

Það er ekki frá því að ég sakni þess þegar ég var lítil og kölluð Hnosa....

Hrafnhildur
mjög miskilinn, þrjóskur listamaður

20.mars 2003

Saddam er valdafíkill, Saddam heilaþvær þjóðina sína, Saddam er frekur múslimi, Bush þolir ekki Saddam, þannig að allur heimurinn fer í stríð!!!!! Hvernig er það, hafa þessir menn aldrei hlustað á John Lennon og Yoko Uno??? Geta þeir bara ekki verið í fýlu hvor í sínu horni, Saddam í Írak að heilaþvo Íranska múslima og Bush í Bandaríkjunum að opna annan skyndibitastað! Mér finnst algjör óþarfi að blanda restinni af hnettinum í það þó að þeir þoli ekki hvorn annan, annars er þetta bara eins og Maggabest kallar það: tippaslagur á háu stigi!! Ég persónulega vill að öll dýrin í skóginum séu vinir, enda heyrði ég það einhversstaðar að ekkert dýr mætti éta annað dýr og hef reynt að lifa eftir því!!! Kannski við ættum að láta Háttvirtan utanríkisráðherra senda þeim kumpánum eintak af dýrunum í Hálsaskógi.....

SKATTFRAMTAL!!!!!!! *HROLLUR*
Nú sameinast allir íslendingar í viðbjói sínum og telja fram syndir seinasta árs. Ég persónulega er skíthrædd við þennan óhugnað, því að fyrir mér er þetta eintóm hebreska. Reyndar er ekkert mál að sækja um frest og gerði ég það náðasamlegast, því að enn standa samningaviðræður við mína heittelskuðu móðir sem hæst (vonandi, allavegana) og vona ég að hún aumki sig yfir mig í fáfræði minni og hjálpi mér með þetta.... Ætli bandaríkjamenn skili skattaskýrslu eða fara þeir bara í stríð við skattinn? Bara að spá....

Ég var að fá viðvörunarpóst frá síminn-internet, þar sem er verið að vara við svikamyllu á netinu. Hún er þannig að ef maður fer inn á vafasamar síður (klám, spjall os.frv.) og er að dánlóda forritum, þá köttar síðan á þinn netþjón og tengir þig inn á netþjón sem telst sem símtal til Gínea Bissá (ef einhver veit hvað það er....) og kostar mínútan þangað 98 krónur. Ég er búin að vera að tala við fólk sem hefur lent í þessu og er ekki ánægt, þannig að þetta er ekki bara enn ein innantóm viðvörunin. Þess vegna við ég minna ykkur á að fylgjast með því á hvaða netþjón þið eruð tengd með því að klikka á tvær tölvurnar í horninu, því ég vil ekki lenda í því að tala við ykkur út af þessu :)

En annars vil ég bara biðja ykkur að taka til við að tvista....

Hrafnhildur
Ein af dýrunum í skóginum

sunnudagur, mars 16, 2003

Og endilega látið ljós ykkar skína í gestabókina eða argið upphátt (shout out) á mig, mér finnst svo gaman að fá komment á síðuna mína *roðn*

Hrafnhildur
forvitin í meira lagi

16.mars 2003

Jæja þá er fíkniefnafælni heiðursmaðurinn kominn með blogg, sem þið getið litið á hér.

Ég er að fylgjast með heimildamyndinni Hlemmur, en hún er um "metnaðarfulla" fólkið sem sækir Kaffi Austurstræti, situr þar allan daginn og syrgir hinn fallna Keisara!!! Áðan var verið að taka viðtal við mann og konu, sem við fyrstu sýn virtust vera par.... þegar minn ástsæli vaktapartner rak augun í imbann argaði hann upp yfir sig: NEI EKKI ÞAU.... Ég bað hann um skýringu á þessari upphrópun og þá sagði hann mér að þau bjuggu fyrir neðan hann þegar hann bjó á Vitastígnum. Það var sossum ekkert að því annað en að þetta eru mæðgin sem búa saman sem par!!!!! Vegna ógleði langar mig ekki að fara nánar út í það, en þau virtust bara vera stolt og hamingjusöm saman og fannst þau svo sannarlega hafa slegið tvær flugur í sama höfuðið!!!!

Árshátíð símans verður haldin með pompi og pragt eftir 3 vikur og ég held ekki lengur vatni af tilhlökkun!!! Ég veit eiginlega ekki af hverju, en árshátíðir eru bara hápunktur ársins í mínum augum, mér finnst svo gaman þegar allir úr vinnunni hittast og allir eru svo fínir og bara allt svo ógisslega gaman. Ég held það séu 2 vikur síðan ég ákvað í hverju ég ætlaði að vera og svo ætla ég að fara í hárgreiðslu og kannski förðun líka.... Kannski er líka partur af ástæðunni sú að í fyrra var ekkert rosalega gaman því að ég var að ganga í gegn um sambandsslit akkúrat þegar árshátíðin var og drakk mig bara dauðadrukkna og hékk mestann hlutann af árshátíðinni á öxlinni á honum Búa mínum, talandi um það hvað hann væri góður DJ milli þess sem ég var samviskusamlega á trúnaðarstiginu :) En núna verður sko geðveikt gaman, af því að ég er ung, stinn og rosalega ástfangin :)

Annars er sossum ekkert að frétta af mér, nema að á föstudaginn vaknaði kvenskörungurinn í mér af löngum dvala og ég þaut um húsið vopnuð ryksugu og afþurrkunarklút og fílaði mig eins og ég væri að leika í Mr. Proppe auglýsingu. Íbúðin var líka svo glansandi á eftir að ég þurfti að ganga um með logsuðugrímu!!! Eftir þessi herlegheit öll eldaði ég alveg ótrúlega gómsætan kjúklingarétt ( uppskrift frá Dagbjörtu frænku, takk takk) handa Gumma mínum og Steinbirni rúmmeiti, og kokkurinn Steibjörn gaf mér 10 í einkunn, ekki lélegt tíhí.

En nú er ég að verða búin í vinnunni (vegna lokaðs heimasíma þarf ég að blogga í vinnunni, ástæðan fyrir stórum gloppum í bloggfærslum) verð ég bara að biðja ykkur vel að lifa þangað til næst....

Hrafnhildur
Kvenskörungur í galakjól


miðvikudagur, mars 12, 2003

11.mars 2003

Garfield seinustu 25 árin, skemmtilegasti tímaþjófur sem ég hef komist yfir lengi....

þriðjudagur, mars 11, 2003

10.mars 2003 (samt eiginlega 11. mars)

Krummi er þreytt..
Krummi vill sofa...
Krummi vill vera rík...
Krummi vill vera feit óperusöngkona sem lemur eiginmann sinn með upprúlluðu eintaki af íþróttasíðum New York post....
Krummi vill leika Soffíu frænku í endurgerð Jóns Odds og Jóns Bjarna....
Krummi vill að öll dýrin í skóginum verði vinir...
Krummi vill hlusta á kisubörnin kátu...
Krummi vill halda áfram að vera krútt og heita Hnosa...
Krummi vill að Flugfélag Íslands hætti að okra...
Krummi vill að allir leðurhanskar séu með kanínufóðri...
Krummi elskar sílíkonbrjóst....

Hrafnhildur
Brjóstgóði spörfuglinn

10.mars 2003

Ég var að skoða íbúðir á mbl.is og ég breyttist í upphrópunarmerki við það!!!!! Ég skil ekki að 120 fermetra steinsteipuhrúga með áföstu baðkari og forstofuskáp geti kostað 28 millur!! Ég og Davíð fórum að spjalla um þetta ömurlega okur og hann kom með þessa háfleygu setningu: "já, þetta er fáránlegt... þetta er bara steypa... það er ekki eins og maður geti ferðast á þessu" Hahaha þá fórum við að ímynda okkur... "Andskotinn, það vantar bensín á íbúðina mína", "Nei ég kemst ekki, það er punkterað á íbúðinni minni". Skemmtilegar pælingar, en ég er samt að hugsa um að flytja bara inn í alþingishúsið og borga fasteignagjöld þaðan. Ekki vitlaust þar sem ég er hvort eð er búin að borga það hús, ásamt öllum íslendingum.Gaman að fá Davíð Oddson inn á sig þegar maður er í arómaþerapí baðinu sínu eftir erfiða vakt, eða þurfa að hlusta á tuðið í Steina joð þegar maður er með nefrennsli og beinverki.

En að atburðum helgarinnar.... Strax eftir vinnu á föstudag brunuðum við skötuhjúin til Keflavíkur að heimsækja bróður minn. Það var rosa fínt, Gummi minn meira að segja fékkst til að spila á venjuleg spil, undur og stórmerki!!!! Eftir nokkur ránd skruppum við á Cafe Duus, þar sem við héngum fram að lokun. Landsbyggðarhrokinn kom upp í borgarbarninu Guðmundi á laugardeginum á kaffi París, þegar hann fór að lýsa ferðinni fyrir félögunum, og tilkynnti það stoltur að hafa farið á eina kaffihúsið í Keflavík. Bölvaður....
Afgangur helgarinnar fór svo í venjulega leti og sjónvarpsgláp, með tilheyrandi innbyrðingu óhollra matvæla.

En núna held ég að ég sökkvi mér bara niður í ísfólkslestur, þar sem ég er á næturvakt og drulluleiðist. Hafið það bara gott og verið vinir:)

Hrafnhildur
Upphrópunarmerki í íbúðaleit

fimmtudagur, mars 06, 2003

6.mars 2003

Þá hef ég loksins náð hámarki letinnar!!!!! Ég sem sagt lét verða af því í seinustu viku og gerði samning við þrekhúsið upp á ár. Jæja, ég gat nú ekki byrjað í seinustu viku sökum þess kvenlega sem hrjáir okkur einusinni í mánuði, en ég ákvað að byrja með ofsa á mánudaginn. Á sunnudagskvöldið fattaði ég að ég væri á næturvakt um nóttina og færi síðan beint í vinnuna þegar ég vaknaði og yrði til 24 um kvöldið. Það var nú ekki svo hræðilegt, enda gæti ég bara notað þriðjudaginn í ræktina í staðinn. Þriðjudagurinn rann upp í allri sinni fegurð, en sú fegurð entist ekki lengi þar sem ég fattaði að ég ætti ekki tilheyrandi fótabúnað, þannig að ekki varð mikið úr hreyfingunni þann daginn. Í gær fór ég svo og keypti mér 5 gíra hlaupaskó og var reddí steddí, en þá var elskan mín veikur og ég gat ekki farið að skilja hann eftir, einan og hjúkrunarkonulaus, þannig að ég var heima í gær líka...... En eins og flestir lesa út úr þessu, þá er þetta náttúrlega bara leti dauðans sem er að plaga mig, en nú verður sko ekkert "elsku mamma" neitt!!! Í dag fer ég í Body Combat og ekki múkk um það meir!!!

Hrafnhildur
Með viljann að vopni

mánudagur, mars 03, 2003

3.mars 2003.

Vinkona hennar Þóru, vinnufélaga míns, er bloggari, og hún var að tala um að hún hafi verið í partíi með kærastanum sínum. Þar fór hún að tala við einhverja 2 vini hans um daginn og veginn. Ekki er þetta nú frásögufærandi nema síður væri, nema fyrir það að þessir tveir kumpánar komu upp til kærasta hennar seinna um kvöldið, í sitthvoru lagi, og spurðu hann hvort það væri nú ekki erfitt að eiga svona sterka konu... svona konu sem hefði svona sterkar skoðanir á hlutunum!!!!!! Svona fyrst við erum að tala um það, eigum við þá ekki að drífa okkur aftur til 1820 þegar þessi hugsanaháttur var upp á sitt besta!!!!!
Aldrei hef ég lent í því að einhver komi upp að mér og spyrji mig hvort að það sé nú ekki erfitt að eiga svona sterkann kærasta!!! Hvaða bull er þetta??? Þetta kitlaði rauðsokkuna í mér svo ofsalega að ég er komin með hnerra og er svo sármóðguð fyrir hönd okkar æðra kynsins að mig langar helst að hafa þennan texta allan feitletraðann!!!! Ég hreinlega biðst bara lausnar fyrir mig og öll mín ráðuneyti!!

Ég varð bara að tjá mig aðeins um þetta mál, en annars er ekkert að frétta af mér þannig að ég bið ykkur að ganga hægt um gleðinnar dyr, þangað til næst.....

Hrafnhildur
Nútíma rauðsokka

sunnudagur, mars 02, 2003

2.mars 2003

Jæja.... þá er það offisjalt, ég er ættbókafærður lestrargæðingur hinn mikli!!! Ég vaknaði um hádegi í morgun (gærmorgun, ég er á næturvakt og þessvegna er ennþá 1 mars hjá mér) og ákvað að þessi dagur yrði tileinkaður Ísfólkinu, þar sem Gummi var í vinnunni og ég hafði ekkert að gera. Allavega, þá er ég búin með 3 bækur síðan ég vaknaði og samt tók ég góðar pásur inn á milli til að fara í búðina, Byko og að sofa fyrir næturvaktina!!! Reyndar las ég þriðju bókina á næturvaktinni sjálfri... en hvað um það, ég er bókaormur og er að hugsa um að lita hárið á mér rautt, ganga um með tíkarspena og teikna á mig freknur!!!

Ég verð nú að viðurkenna að ég er orðlaus yfir ósvífni fólks!!!! Ég vinn í símsvörun og það er alveg ótrúlegt hvað fólk notar til að fá símana sína opnaða: Viltu opna símann minn af því að íbúðin mín var að brenna og ég verð að hringja í manninn minn, viltu opna símann hjá mér af því að ég er öryrki og mig langar svo í Pítsu, viltu opna símann minn af því að það er maður að deyja hérna við fæturna á mér og ég verð að hringja á lækni... hringdu þá í 112.... nei mér finnst betra að tala beint við lækninn!!!!! Ésús minn eini!!!! Hefur fólki aldrei dottið í hug að borga bara reikningana sína???Lífið yrði örugglega mikið auðveldara.

Ef það er eitthvað sem fær mann til að brosa og hlæja í amstri dagsins, þá er það Færeyska dagblaðið, ja eða bara færeyska yfir höfuð!! Ef þessir litlu eylendingar vissu hvað málið þeirra er fyndið þá held ég að þeir myndu hætta að tala og guð forði oss frá því :)

Sjitt mar.... ég er svo sybbin að ég gæti sofnað fyrirvaralaust, hvenær sem er.
Allavega.. ég nenni ekki að bloggast meira, fer bara að lesa.

Gónótt

Hrafnhildur
Hið ofurþreytta lestrarhross

laugardagur, mars 01, 2003

28 febrúar 2003

Ég tók þá menningarlegu ákvörðun í morgun að vera bara þunglynd og pirruð í dag, af því ég er ekki búin að vinna í lottói!!!! Framan af deginum gekk mér vel að halda mig við þessa ákvörðun mína (meðan ég var inni og las ísfólkið) og fyrstu klukkutímana í vinnunni, en svo fattaði ég að að manni fer exjúllí að líða ílla ef maður er þunglyndur, þannig að ég hætti því bara :)

ÉG ER BÚIN AÐ FÁ NÝJA ÞVOTTAVÉL!!!!!!
Bless óhreinu föt, Bless handþvegnu nærbuxur, ég tek á móti þessum tímamótum í lífi mínu með útbreiddan faðminn og bros á vör. Nú ætla ég sko að bretta upp ermarnar og þvo upp úr óhreina tauinu hjá mér eins og ég sé að bjarga lífi mínu með því og þangað til þvottavélin er orðin móð og másandi og farin að vitna í verkalíðsfélögin!!!!!!

Mér til mikillar hrellingar uppgötvaði ég að hún Beta litla Rapp er farin að blogga aftur af fullum krafti og ætlar ekki að láta deigan síga!!!! Ekki það að hún sé lélegur bloggari, því að þó að ég myndi aldrei viðurkenna það, þá er gaman að lesa bloggið hennar, allavegana góð afþreying. En hrellingaratriðið sem ég er að reyna að úthrópa hérna er það að þegar hún er byrjuð að blogga verður engin athygli á okkur hin lengur, af því að við erum ekki fræg, samt erum við hin miklu betri bloggarar, eða allavega ekki verri. Þessvegna segi ég "fuss" og held áfram áróðursherferð minni í netheimum.

Blex kex

Hrafnhildur
Þunglynd í hreinum fötum