föstudagur, nóvember 29, 2002

Ég fer ekki í jólaköttinn!!

Ég fór í Kringluna í Kvöld eftir vinnu og ég fann draumakjólinn minn!!! Hann er með svona Mulin rouge hálfgerðu korsilettusniði, sem ég fíla alveg í botn og hef lengi verið að leita að svoleiðis kjól og núna er ég loksins búin að finna hann!!!! Ég fann hann í Vero Moda (hvar annarsstaðar?)og hann kostaði mig ekki nema 4900 krónur.... það er ekki nema 52700 krónum minna en kjóllinn sem ég sá í Flex í bankastræti og mig langaði svo mikið í, en ég verð nú bara að segja það að mér finnst minn miklu flottari. En ég er allavega búin að galla mig fyrir fæðingu Krists, þannig að fyrir mér má jólakötturinn éta það sem úti frýs þessi jólin haha.

Ég var í fríi í gær og fór í heimsókn til Möggu. Við fórum saman í IKEA og jólin eru sko komin þar, það er sko engin lygi!!! Eftir það röltum við niður Laugarveginn og settumst svo inn á Cafe Kúltur þar sem hún tók viðtal við hvuttana Erp, Bent og Þorstein. Ég sat þarna og fór að spá í því hvað þetta væri súrrealískt eitthvað..... Hrafnhildur, litla sveitastelpan að norðan sitjandi inni á kaffihúsi með umdeildustu röppurum íslands og engum á að finnast neitt athugavert við það hahaha. En þeir eru nú bestu skinn, þó að lýsingarorðið satanískt hafi poppað upp í svo að segja annari hverri setningu og ég verð nú að segja að það síast fljótt inn og ég stóð mig af því í dag að nota þetta lýsingarorð, og var ekki lengi að bíta í tunguna á mér, því að, svei mér þá, ég ætla ekki að fara að tala eins og rappari (þó að ég hafi ekkert á móti röppurum sem slíkum, ég er bara ekki ein af þeim), en allavega, þessi kaffiseta var mjög áhugaverð og heyrði ég margt ótrúlegt, sem er best að hafa ekki eftir, bara að leyfa þeim að gera það opinbert ef þeir vilja... reyndar fer nú flest af því sem fram fór í viðtalið, en já þá verður það bara gert opinbert þar haha.

Jæja, þá er bara jólaglögg Landsímans annað kvöld og svei mér þá ef ég skelli mér bara ekki, og verð jafn blindfull og allir hinir!! Ég ætlaði ekki að fara og var búin að gulltryggja mér fjarveru með því að taka aukanæturvakt en svo fattaði ég hvað það yrði púkó að mæta á mánudaginn og vera ekki fær um að taka þátt í öllum slúðursögunum og hvað þá að ekkert væri hægt að slúðra um mig!! Það yrði skelfilegt, svo ekki sé meira sagt!!! Þannig að ég var ekki lengi að losa mig við þessa næturvakt og kaupa mér rauðvínsflösku hahaha. Ég hef nú heyrt að þessi jólaglögg hjá Símanum séu nú engin slor fyllerí, það taka bara allir á því og enda svo meira og minna á trúnó við forstjórann.

Subway opnaði í dag í JL húsinu. Ég fór í mat klukkan hálf tólf og ákvað að þvi tilefni að fara og nota frímiðana sem ég átti, til að kaupa mér einn feitan 6" bræðing...... en vitiði hvað!!!! Hún Hrafnhildur var fyrsti viðskiptavinurinn á Subway í JL húsinu þannig að ég fékk 12" bræðing, gos og köku, allt frítt og það var tekin mynd af mér og alles... Talandi um mæ 15 minúts off feim haha. Mér fannst þetta náttúrulega bara fyndið, en svo kvisaðist þetta út um vinnustaðinn minn og fólk fór að óska mér til hamingju með titilinn!!!! Mér finnst það náttúrlega bara ennþá fyndnara af því ég var bara að fá mér Subway haha.

Ég tölvunördaðist meira í gær og setti teljara inn á síðuna og mér brá hreinlega áðan þegar ég sá heimsóknirnar inn á síðuna... 105 gestir á rúmlega sólarhring, það lá nú bara við að ég yrði feimin haha. En elsku snúllurnar mínar, þið megið alveg vera opnari og skrifa í gestabókina þegar þið kíkið við, en ég er samt ekkert að kvarta og þakka bara pent fyrir mig, mjög ánægð með gestaganginn:)

En ég neyðist til að kveðja núna, þar sem ég er dauðþreytt og þarf að mæta í vinnu klukkan 9 í fyrramálið.

Hrafnhildur
Andlit Subway með hundshaus á kaffihúsi

þriðjudagur, nóvember 26, 2002

Lifi Kvenskörungarnir!!!!!

Ég var að skoða síðuna hennar Alanis og þá fékk ég svo góða hugmynd að það myndaðist ljósabekkur fyrir ofan hausinn á mér!!! Pay a tribute þeim hörkugellum sem mér finnst verðugar að bera titilinn Kjarnakvendi með því að linka á þær. Þó svo að Alanis sé sú æðsta í mínum augum, fannst mér ekki annað hægt en að setja sjálfa ömmuna efst þar sem hún er óneitanlega sú sem hefur staðið best undir slagorðinu "Girl Power" (Kvennakraftur upp á hið ylhýra) og þar sem að kerlingin náði að rísa upp og traðka á illfyglinu Ike Turner eftir margra ára kjaftshögg og misþyrmingar... Tina, WE SALUTE YOU.. Og enn bið ég ykkur að leggja mér lið og senda mér línu ef ykkur dettur í hug einhver ofurkona sem ykkur finnst annað hvort nógu hæfileikarík og sterk eða reið til að eiga það skilið að vera í slagtogi með þessum Dívum.

Listin að Blogga virðist vera bráðsmitandi því að hún Sóley tók sig til á dögunum og setti saman í síðu, og ég náði að tæla þær Ásu Láru og Þóru út í það að blogga. Mér persónulega finnst þetta listform (já, þetta er listform og ekki orð um það meir!!) afar heillandi og ég er orðin rosalega háð því að blogga, eða fikta eitthvað í blogginu en svo er það náttúrlega önnur saga hvort einhver lesi þetta *humhum*. Ég er eimmitt að fá hina margbrotnu, en þó tábrotnu dansmær Eddu Kentish í heimsókn á eftir og ég er að fara að hjálpa henni að búa til og setja inn gestabók (Edda mín, þú ert búin að blogga í ár... fiktarðu ekkert kona!!!).

Ofurkonan fallega, hún mamma sendi mér pakka í dag og mér þótti rosalega vænt um það að hún sendi mér lítinn miða með í pakkanum sem hún var búin að kyssa varalitakoss á, finnst ykkur ég ekki eiga yndislegustu mömmu í heimi... og besta pabba líka fyrst við erum onn ðö söbbdjekt!!!!!

Hún Linda Sif, önnur kjarnakona sem vinnur með mér (ég er umkringd þessum kvenskörungum) sendi mér link þar sem maður getur fundið, með því að stimla inn nafnið sitt, hvað maður heitir á klámmyndastjörnu-ísku. Hér getið þið athugað hvað þið heitið, ég heiti Tracy Tounge. Þetta er einstaklega hjálplegt og sniðugt ef maður hefur hug á því að leggja þessa atvinnugrein fyrir sig, ja nú eða bara til að finna nafn á sig í MSN eins og ég gerði:)

En jæja, ég kannski þrykki einhverju meira inn seinna í kvöld en ég nenni ekki þessu tuði lengur:)

Hrafnhildur
Kvenskörungur í hjáverkum

mánudagur, nóvember 25, 2002

Ég er orðin tölvuð.......

Haldiði að ég sé ekki búin að fá hina margumtöluðu ferðatölvu!!!!!!!!!
Ég er sem sagt orðin alvöru plebbi með ferðatölvu og GPRS síma, og geri bara aðrir betur. Þannig að þetta er offisjöllí fyrsta bloggið úr hinni heilögu tölvu.

Ég fékk hana fallegu Sæunni mína í heimsókn í kvöld og við sátum og spjölluðum yfir kaffi þegar að Magga bættist í hópinn og þá fórum við hreinlega á flug, enda allar með svipaða sýn á lífið og þokkalega með okkar á hreinu. Við töluðum þó aðallega um karlmenn -Pros & cons- og ég komst að því að sú sérviska mín, sem ég hef alltaf þurft að lifa við, að karlmenn í illa hirtum eða ljótum skóm væru á einhvern hátt bæklaðir hefur að einhverju leiti við rök að styðjast.....það hlýtur bara eitthvað að vera að ungum manni sem klæðist kúrekaskóm nú til dags og finnst hann vera inn og rosa flottur... ja ég myndi allavegana ekki leggja í hann, en það verður náttlega hver að fylgja sínum sérviskum:)
Þessum samræðum fylgdi maraþon kaffidrykkja, þannig að ég sé fram á það að verða svona reverse Þyrnirós, vaka næstu hundrað árin.

Ég man ekki hvort að ég sé búin að segja ykkur frá kettinum mínum , honum Bjarti(hann er eiginlega svona stjúpkötturinn minn, iff jú vill, ég er að passa hann fyrir Anný), en hann er rosaleg persóna sem er eiginlega þjáður af þeirri ranghugmynd að hann sé maður. T.D tekur hann það ekki í mál að sitja á gólfinu ef ég sit við eldhúsborðið... nei, hann situr alltaf á stólnum á móti mér og er örugglega að hneyksla sig á dónaskapnum í mér að ég skuli ekki bjóða honum að minnsta kosti einn kaffibolla, og ef það eru gestir, þarf maður helst að sækja auka koll handa honum, annars situr hann bara í kjöltunni á manni og neitar að gangast við þeirri staðreynd að hann sé í hárlosi og þar af leiðandi ekki vinsælastur á þeim stað. Hann er líka með svo stórt og sætt nef að hann ætti eiginlega að heita Knútur Lúðvíksson eða Böðvar Sturluson. Svo er hann rosalega dekraður og lætur ekki vaða yfir sig baráttulaust, svona eiga alvöru kettir að vera, er það ekki hahaha.

Ég bætti við einum hlekk, Flottir textar, þar sem ég ætla að setja inn texta og ljóð sem hreyfa við manni og fá tárakirtlana til að taka við sér, þannig að ef að þið lumið á fallegum ljóðum eða söngtextum sem segja allt sem manni hefur alltaf langað til að segja, endilega sendið mér það. Og hver veit nema ég láti eitt og eitt ljóð eftir sjálfa mig fljóta með inn á milli, það á eftir að koma í ljós... fer allt eftir kjarki og fyrri þörfum :)

En núna er ég að hugsa um að fara að dröslast inn í rúm og gera mjög bjartsýna tilraun til að reyna að sofna, því að það tekur á að tala um karlmenn, reyna að skilja þá og alla þeirra kosti og galla, og torga í leiðinni 28 lítrum af kaffi, þannig að ég kveð í bili.

Hrafnhildur,
Þyrnirós með nýja fartölvu og koffíneitrun.


sunnudagur, nóvember 24, 2002

Mikið rosalega er ég búin að fikta núna!

Ég var frekar óánægð með bloggið eins og það var, það var einhvernveginn allt of flókið að setja allt inn, ekki nógu notendavænt, þannig að ég breytti útlitinu á því (eins og þið sjáið) og þetta er allt annað líf, miklu auðveldara að gera allt :) Reyndar fylgdi sá galli að ég missti út allar eldri færslurnar af því að þær voru faldar einhvernveginn á bak við allt og rosa vesen en ég ætti nú ekki að vera lengi að bulla inn lesefni handa ykkur, þannig að dónt penikk.

Ég fékk hann Davíð handsome love í heimsókn í gærkvöldi, hann var að fara á djammið og kíkti í heimsókn áður en hann fór. Við fórum í Trivial pursuit, og það var svo gaman hjá okkur að við gleymdum tímanum alveg, og allt í einu var klukkan bara orðin ellefu og hann ekki ennþá kominn í partíið sem hann ætlaði að vera löngu farinn í. Ég náttúrlega leyfði honum að vinna mig af því að ég er svo góðhjörtuð (je ræt), þannig að ég lenti í öðru sæti sem er hreint ekki svo lélegur árangur tíhí.

Ég hef ekkert heyrt í honum Steinbirni, sem er að flytja inn um mánaðrmótin, ég er að spá í hvort að hann sé einn af þeim sem verður týndur og tröllum gefinn annars lagið. En ætli það endi ekki með því að ég hringi í hann, þessa elsku. Ég er líka bara að hugsa um að hringja í þjóðskrána og láta formlega breyta nafninu hans Steina í Geirfinn, þar sem ég hef hvorki heyrt af honum né séð síðan hjólið var fundið upp, seinast vissi ég af honum úti í Prag og síðan ekki söguna meir!!!

Ég fékk þetta rosalega breinstorm áðan þegar ég fattaði að það er akkúrat mánuður til jóla í dag.....24 nóvember.... og í framhaldi af því langaði mig mest til að hlaupa heim, þruma í eina smákökuuppskrift, slengja jólalögum á fóninn og jólaskapast:) En sá draumur minn féll killiflatur um sjálfan sig þar sem ég er í vinnunni, má ekki borða smákökur og jólaandinn minn með sínum jólalagahlustunum hefur sætt mikilli gagnrýni frá fólkinu í kring um mig *hrmpf* En ég get þó sætt mig við að það eru núna einungis 6 dagar í að restin af þjóðinni sameinist mér í þessari semi-jólageðveiki minni, og þá líka förum við að fá yfir okkur flóðbylgjurnar af auglýsingabæklingum, jólaauglýsingum, jólakortum og gömlum rauðsokkum sem eru að leiðbeina fólki hvernig það á að takast á við jólaþunglyndið.

En ég hef ekki mikið meira að tuða um núna þannig að ég sendi bara mínar jólakveðjur,

Hrafnhildur,
með vott af jólageðveiki

laugardagur, nóvember 23, 2002

Laugardagur og ég tók ekki eftir því!!!!!!

Þá er aftur kominn laugardagur... er ég ein um þá skoðun að þessir dagar fljúgi áfram eins og þeim sé borgað fyrir það? Seinast þegar ég tók eftir var mánudagurinn fyrir 2 mánuðum síðan og nú er allt í einu kominn laugardagurinn 23. nóvember!!!! Það er næstum því ár síðan ég flutti til Reykjavíkur og þvílíkt sem allt er búið að breytast síðan þá, ég get nú ekki annað en sagt hreinlega bara drottinn minn dýri. Ég verð samt að segja að flestar þær breytingar, ef ekki allar eru til hins betra og ég er rosalega ánægð með lífið núna.

Ég fór á fimmtudaginn upp í Kringlu og ef ég var ekki komin almennilega í jólaskapið þá, þá er ég það núna!!!! Ég fór og fjárfesti í 2 jólaseríum (sem ég reyndar ætlaði að vera löngu búin að) og keypti 2 jóladiska sem mér finnst ómissandi í desember, en það eru Celine Dion og Dolly Parton og Kenny Rogers jóladiskarnir. Svo fór ég heim og slengdi seríunum upp í glugga, setti diskana í spilarann og settist síðan við eldhúsborðið og hélt áfram með kortaframleiðsluna. Reyndar fór ég að hugsa um hvað ég væri nú sorgleg....brjálaða kattakonan á Seljaveginum að föndra jólakort í nóvember.... þannig að ég hringdi í hana Betu Rán, sem ég hef ekki hitt síðan fyrir seinustu ísöld, og plataði hana með mér á kaffihús, þar sem við sátum langt fram eftir kvöldi og slúðruðum eins og óðar manneskjur. Við ætluðum að fara á Brennsluna en svo rak ég augun í hnakka sem ég kannaðist við inni á café Paris, þannig að við kíktum þangað inn og settumst hjá Gumma og Halla sem sátu og voru að spjalla á mjög svo menningarlegann hátt.

Nú er alveg séð fyrir endann á þessum tölvukaupamálum mínum þar sem hann Biggi fann fyrir mig þessa fínu Fujitsu-Siemens ferðatölvu. Ég gerði mér lítið fyrir og borgaði hana í gær og fæ hana svo í hendurnar á mánudaginn og guð minn almáttugur hvað ég á eftir að tölvast þá. Ég vil reyndar koma því að hérna að Biggi og Hannes eru búnir að vera ómetanleg hjálp við þessi tölvukaup og mér finnst að það ætti að skrá þá sem tvær verðmætustu auðlindir Íslendinga, en allavegana, frá og með mánudeginum verð ég orðin tölvutæk á seljaveginum.

Í gærkvöldi fór ég með Gumma að passa litlu dóttur hans, hana litlu Emilíu Sól) og mæ god, ef þetta barn er ekki bara eitt það mesta krútt sem ég hef nokkurntímann augum litið (fyrir utan Rebekku Ósk, náttúrlega.....) hún bræðir mann alveg með sínu sæta, næstum tannlausa brosi og mann langar mest til að bíta í þessar dúllulegu kinnar á henni :)

En jæja, ekkert meira að frétta á þessum bæ í bili, hafið það bara gott.

Hrafnhildur,
Næstum tölvutæk

miðvikudagur, nóvember 20, 2002

Þá er ég klædd og komin á ról aftur....

Já, þetta er ekki búin að vera leti í mér undanfarið, ég lá heima í flensu..... alveg gjörslamlega tölvulaus og allslaus. Ég veit ekki hvernig ég hefði komist í gegn um þessi veikindi án minnar tryggu vinkonu, Bríetar Jónasdóttur (öðru nafni Bridget Jones), en hún leyfði mér að lesa seinni dagbókina sína (grenjandi snilldin eina). Reyndar stóðu Gummi og Guðný sig í stykkinu, Gummi var hjá mér fyrri daginn og svo kom Guðný og leysti hann af í gær og var hjá mér í allann gærdag, þannig að Bridget var ekki eina vinkona mín þennan tíma.

Ég fór í 60 ára afmæli hjá Óla hennar Lilju systur mömmu á laugardagskvöldið, þar sem voru glæsilegar veitingar og mjög gaman. Eftir veisluna fórum við frænkurnar, ég, Sigga og Ólöf niður í bæ, byrjuðum inni á Amsterdam og fórum svo þaðan á Astró þar sem ég hitti marga góða króksara (Írisi hina ægifögru, Kjartan ómars og Hinn eina sanna Hrapp)sem voru öll sönn sínum Skagfirsku rótum og voru blindfull og vettlingalaus. Ég var orðin ansi köflótt undir það síðasta og skrönglaðist heim (reyndar er það nú einhvernveginn allt í móðu hvernig ég komst heim)
Svo fattaði ég það náttlega daginn eftir að ég hafði afrekað það að tína peningaveskinu mínu, í skrilljónasta skipti!!!!!! Ég sver það, ef þið viljið tína veskjunum ykkar, talið þá bara við mig, ég skal gera það fyrir ykkur með lítilli fyrirhöfn. Ég var náttlega frekar pisst yfir því, en svo hringdi hinn yndislegi Beggi (sem ég þekki ekki neitt, bæ ðö vei) í gærkvöldi og sagðist vera búinn að finna veskið mitt og ætlar að skila því til mín á eftir, alveg einstaklega heiðarlegur og æðislegur ungur drengur.


En ég hef ekki tíma til að röfla þetta núna, ég er að fara heim eftir erfiðan og langan vinnudag. Við heyrumst fljótlega.

Hrafnhildur,
bráðum með peningaveski

föstudagur, nóvember 15, 2002

Þetta er hreinlega dagur helvítis!!!!!!!!!!

Hvers vegna er það þannig að þegar að konur eru á þessum sérstaka tíma mánaðarins, að þá langar þær alltaf í súkkulaði!!!!!!!!
Ég má ekki borða súkkulaði, og ef ég geri það þá fæ ég geðbilaða magapínu, en hafið þið einhverntímann heyrt talað um konu sem getur neitað sér um súkkulaði þegar hún er í þessu ástandi? Við skulum bara orða þetta svona: Ég tók parkódín við eðlilegum verkjum sem fylgja þessu tímabili en er samt með magapínu, og leggiði nú saman 2 og 2 og reynið að finna út hvað ég stalst til að fá mér (*roðn*)

En annars er það að frétta að jólakortaframleiðslan er komin á fullt þar sem sköpunargáfan fær að njóta sín til fulls (að vísu eru þetta bara servéttur sem ég ríf niður og lími á karton, en sköpun samt haha). Ég var að lesa gestabókina og þar komu fram efasemdaraddir sem gagnrýndu minn heilaga jólaanda, en ég segi nú bara fuss og ætla bara að leyfa ykkur að hugsa til mín um miðjann desember þegar þið hamist sveitt við að gera jólahreint og kaupa jólakortin ykkar í bónus, ég er búin að gera jólahreint og jólakortin verða tilbúin um 10 des ef útreikningur minn reynist réttur:) Svo er jólabarnið í mér bara svo stórt að það er eins og ofalið svertingjabarn, og ég hef þurft að halda aftur af því í svo mörg ár að núna er það að koma út með látum.

Ég er mikið búin að vera að spá í því upp á síðkastið að fá mér ferðatölvu, því ég er eiginlega bara að verða háð netinu, og svo er svo oft sem ég er að gera eitthvað og hugsa "þetta fer sko í mitt geysispennandi blogg" svo þegar ég kem í vinnuna er ég búin að steingleyma því og bloggið verður bara ekkert geysispennandi *hrmpf* . Ég er að hugsa um að láta vinkonu mína, hana Vísa, veita mér fjárhagslega aðstoð. Það er samt bara heilabrotið núna hvort ég ætti að fjárfesta í þessu tryllitæki fyrir eða eftir jól af því að hún Vísa talaði eitthvað um það um daginn að ef ég myndi lenda í vandræðum með jólagjafirnar þá myndi hún hjálpa mér en ég held að ég þyggi ekkert þá hjálp þannig að það getur verið að ég gerist tölvuvædd heima á Seljaveginum á næstu vikum einhverntímann, og þá skuluð þið sko vera viðbúin bloggsprengingu skal ég segja ykkur!!

En ég hef nú eiginlega ekkert meira að röfla um núna þannig að ég segi bara bless

Hrafnhildur,
Jólakortaframleiðandi með ofnæmi fyrir súkkulaði

mánudagur, nóvember 11, 2002

Jólaskapið er að kæfa mig......


Já ég segi það satt, jólaskapið er gjörsamlega að gera út af við mig núna, ég skil þetta eiginlega ekki, ég hef aldrei verið svona slæm. Ég get ekki beðið þangað til klukkan verður 19:00 svo ég geti vippað mér út í Byko og fjárfest í einni eða tveimur jólaseríum til að þruma í gluggana, svei mér þá ef þetta jólaskap er ekki bara að verða krónískt hjá mér. Ég ætla að rölta upp á laugarveg á morgum (já, ótrúlegt en satt þá er ég í fríi á morgun) og kaupa hráefni í jólakortagerð, mér finnst ekki seinna vænna en að fara að byrja, ég og Margrét systir vorum að klára kortagerðina um þetta leyti í fyrra (vá, það er nú einum of mikil geðveiki).

Hún Valla skagfirðingur var að skilja eftir kveðju í gestabókinni hjá mér áðan, gott að vita að einhver lesi þetta röfl, og mér vöknaði næstum því um augun þegar hún sagði mér að hún hafi linkað á mig frá sinni síðu, svona stöndum við saman, þessir Skagfirðingar, og Valla mín, þú færð link um leið og ég er búin að finna út hvernig ég set þá inn *hrmpf*.

Ég var að fá meil frá henni Sibbu sætu sem er svolítið mikið vit í, það er einhvern veginn þannig að maður á aldrei að geyma til morguns að segja einhverjum að manni þyki vænt um hann eða nota uppáhaldsilmvatnið sjaldan eða nota uppáhaldsfötin spari því að maður veit ekkert hvort maður verði á lífi á morgun til að nota það eða segja það, og þetta snerti mig svolítið. Héðan í frá ætla ég að segja öllum sem mér þykir vænt um að mér þyki það og fara að ganga í uppáhaldsfötunum..... Vá hvað ég á eftir að verða væmin, en ég á þó allavegana eftir að vera vellyktandi og spariklædd við það haha.

En jæja, hættum nú þessu bulli.....

Hrafnhildur,
Spariklædd og væmin í jólakortagerð.

sunnudagur, nóvember 10, 2002

Ja nú dámar ekki Gvend og alla hans vini.......

Ef ég er ekki bara orðið úthrópað tölvugúrú!!!!
Loksins hefur mér tekist að setja inn þessa blessuðu gestabók og ég finn hvernig tölvukunnáttan rennur um æðarnar á mér. Þetta var ekkert mál þegar ég loksins gaf nördinum í mér lausann tauminn og allt í einu las ég html kóðana jafn auðveldlega og slúðurgrein í Séð og Heyrt!!!!
Sjálfsmyndin hefur verið endurnýjuð og ég er að hugsa um að láta bara vaða og sækja um hjá Microsoft (veit einhver símann hjá Bill). Reyndar var hann Bjarki eitthvað að væla um að ég ætti að taka það fram að ég hafi ekki gert þetta ein en ég held að hann hafi nú lært meira af mér við þetta en ég af honum (nei djók, takk fyrir hjálpina, Bjarki og Sóley)

Ég var að tala við hana Anný mína á MSN-inu, hún gladdi mig svo mikið í gærkvöldi þegar hún sagðist ætla að kíkja á klakann á allra næstunni, en hún er búin að skipta um skoðun núna, ætlar að vera áfram úti á Krít, sagðist hafa farið að hugsa um kuldann...... en ég segi nú bara bull og vitleysa Anný mín, ertu ekki Íslendingur? En hún er komin með íbúð þarna úti á Krít og ætlar að vera þarna eitthvað áfram, ég er að hugsa um að setja á stofn söfnunarsjóðinn Anný heim og auglýsa bankanúmerið á Radíó X.

Annars er ég svo montin með að vera farin að geta bætt einhverju svona inn í að ég nenni eiginlega ekki að skrifa neitt haha, enda hefur ekkert gerst hjá mér (allavegana ekkert prenthæft haha) þannig að ég er að hugsa um að skrifa bara ekki meira í bili.



Þangað til næst.....

Hrafnhildur,
Úthrópaður tölvunjörður.

laugardagur, nóvember 09, 2002

Laugardagurinn ógurlegi

Jæja, þið búist náttúrulega öll við einhverjum krassandi fréttum af viðburðum gærkvöldsins, en....... ég er að vinna alla helgina þannig að það er ekki rassgat að gerast hjá mér haha. Ég kíkti á hana Sæju pæju í gærkvöldi, sem var rosalega næs, alltaf jafn gaman að kíkja á hana (svo á hún alltaf svo gott kaffi:), ég sat yfir henni í nokkra klukkutíma, og við slúðruðum eins og rauðsokkur í saumaklúbb.

Þegar ég kom heim horfði ég á Jay Leno þar sem Marilyn Manson var gestur (sem bæ ðö vei er sonur Cher), og ég held að maðurinn hafi bara aldrei litið í spegil, ég segi ekki meira, hann er eins og gangandi draugasaga, ég reyndar fíla sum lögin sem hann hefur verið að endurgera eins og sweet dreams, þó að júriþþmix hafi komist mjög vel frá því lagi og ekkert endilega þörf á endurgerð (almáttugur, ég sánda eins og lélegur tónlistargagnrýnandi!!!!) en svo ég tjái mig nú ennþá meira þá segi ég bara: Manson... ég held þú ættir að íhuga að fá þér hauspoka!!!!!!

Ég er að horfa á Kjarnakvendið Pink í sjónvarpinu, mér finnst hún rokka ansi feitt skal ég segja ykkur, ég keypti mér diskinn með henni og hann er mjög góður. Mér finnst samt alltaf eins og ég sé að halda framhjá þegar ég er að hlusta á eitthvað annað en Alanis Morrisette, hún er náttlega bara gyðjan mín. Ég hef heyrt það að karlmenn séu hræddir við konur sem hlusta mikið á hana Alanis en það er náttlega ekkert skrítið, þessi litlu skinn, þeir þola svo lítið og það er svo stutt síðan að við stóðum við eldhúsvaskinn og tilbáðum drullugu matardiskana þeirra. Svo kemur kvenskörungur eins og hún með attitúd helvítis, og þá er ekki skrítið að þeir skjálfi soldið.

Þegar ég var að labba til Sæunnar í gær fór ég fram hjá kjólabúðinni Flex á Laugavegi og sá kjólinn sem á eftir að verða ástæðan fyrir mörgum andvökunóttum hjá mér af því að hann er svo stjarnfræðilega flottur, og ég sá að það væri ekki annað hægt en að kaupa þennan kjól til að koma í veg fyrir að jólakötturinn myndi narta í mig. Ég hringdi þess vegna í Flex áðan og athugaði hvað hann kostaði og bjóst nú við að það væri um 20000,- sem væri nokkurn veginn viðráðanlegt ef jólabónusinn yrði feitur, en ég ákallaði nú bara almættið þegar manneskjan sagði mér hvað flíkin kostaði!!!!!!!!!! FIMMTÍUOG SJÖÞÚSUND OG SEXHUNDRUÐ KRÓNUR!!!!!!!!!! Það lá við að ég spyrði þennann kvenmann hvort hún kyssti mömmu sína með þessum munni. Ég sver það, ég er ekki hissa þó að sumir fái jólaþunglyndi ef að konurnar þeirra kaupa kjóla sem ná upp fyrir skattleysismörk í verði!!!

Ég er að fara að hitta mömmu gömlu á eftir, en ég fékk að vita það í gær að hún væri mjög óvænt (allavegana í mínum eyrum) að koma í bæinn með saumaklúbbnum, og verða þau (já karlarnir fengu að fljóta með í þetta skiptið, en pabbi er svo bissí alltaf að hann þurfti að vera eftir heima) á Ítalíu þegar ég er búin að vinna. Mér finnst það alveg dökkgráupplagt að fara og hitta þau og grenja svona eins og eina ítalska máltíð útúr minni dásamlega fallegu og örlátu móður (ætli hún taki hintinu haha). Þau eru svo að fara í leikhús og gista svo á Hótel Sögu í nótt, þvílíkur lúxus sem fylgir því að vera í saumaklúbb, ég þarf endilega að koma mér inn í einn slíkan.

En jæja, er þetta ekki bara orðið fínt?
Bless bless,

Hrafnhildur,
á leiðinni í jólaköttinn.

fimmtudagur, nóvember 07, 2002

Ja nú er ég svo reið að hnúarnir á mér hvítna!!!!!!! Ég ákvað að standa undir nafni sem tölvugúrú og redda þessu bara sjálf með gestabókina og þetta drasl, og fór bara og náði í uppskriftina að þessu öllu á þessu tölvutungumáli þarna, veit ekki alveg hvað það heitir, held að það heiti html, og svo byrjaði ég að skrifa þetta inn í "templeitið", þið náttlega vitið öll hvað það er, er það ekki hahaha. Jæja, agglavegana, þegar ég var búin að þessu fór ég inn á bloggið mitt til að sjá hvað myndi gerast, og beið spennt meðan síðan lódaðist inn, og hvað haldiði að hafi gerst..... EKKERT!!!! Nákvæmlega ekki neitt *urr* Þannig að ég varð þar með að kyssa bless þá drauma mína um hálauna vinnu hjá Microsoft og frægð og frama vegna óendanlegs tölvunördaskapar. Ég verð semsagt að kyngja stoltinu, sýna smá biðlund og vona það að Erling hinn rómantíski fari að hitta einhvern sem kunni þetta, komi og setji þetta inn hjá mér og kenni mér þetta kannski í leiðinni :)

Ég var að tala við hann Steinbjörn áðan, sem liggur í flensu (láttu þér batna, krílríkur minn), og hann var að segja mér að hann er að fara til London á þriðjudaginn og verður í viku, Geirfinnur (Steini, þetta bara passar þér svo vel haha) er að fara til Prag á morgun, Guðný er að fara norður á morgun og Magga er hreinlega bara að fara!!!!! Ég er farin að halda að þetta sé eitthvað persónulegt, krakkar mínir, það er bara landflótti í allar áttir hahaha, Þannig að ég verð bara, sýnist mér á öllu kommplítlí hóm alón það sem eftir er mánaðarins. Ég er að hugsa um að nota tímann í að dauðhreinsa íbúðina svoleiðis gjörsamlega þannig að læknum finnist þeir þurfa að þurrka af skónum sínum áður en þeir koma inn, og svo er ég búin að fá leyfi frá Anný til að leggja parkettið, mikið ógisslega verður íbúðin nú fín eftir að verð búin að sleppa mr. Proppe lausum þarna inni.

Magga var að tala um að lána mér tölvuna sína (hún á nebblega bæði ferða- og heimilistölvu) þannig að ég geti nú bloggast heima líka, sé ekki alltaf að eyða vinnutímanum í þetta, en ég veit ekki hvort ég taki hana, er ennþá að melta þetta með mér, ég sé það fyrir mér að ef ég fái mér tölvu heim þá fyllist þetta blogg á nó tæm og allir fái ógeð á mér hahaha.

En nú er ég alveg að verða búin í vinnunni, þanngi að ég kveð að sinni.

Hrafnhildur,
Alein og gestabókarlaus.

miðvikudagur, nóvember 06, 2002

Þá er rúmmeitið, hún Magga, búin að ákveða að hætta við að fara til Stóra eplisins í Fyrirheitna landinu og ætlar að hreiðra um sig í íbúðinni sinni á Snorrabrautinni. Það verður nú ákybbilega tómlegt hérna án hennar en Steinbjörn ætlar að flytja hingað inn í staðinn og vonandi fyllir hann eitthvað uppí, hann allavega talaði um að bestu meðmælin hans væru að hann sé kokkur þannig að hann kokkar sig örugglega inn að hjarta hjá mér.

Ég hringdi í Geirfinn í dag (sorrý Steini minn, en ég held að þetta viðnafn sé komið til að vera) og hann ætlar að koma hérna og hjálpa mér að setja parkett á íbúðina (sem þýðir það náttúrulega að hann leggur parkettið og ég hjálpa honum en við þurfum nú ekki að kafna á formsatriðum hérna) sem á eftir að setja mikinn svip á hana, og ef ég fæ leyfi frá Anný (plís elsku, elsku Anný) þá ætla ég að mála eldhúsið í aðeins bjartari litum, þetta verður svolítið drungalegt svona í skammdeginu.
Síðan get ég ekki beðið eftir að geta sett upp jólaseríur, ég veit að það er aðeins of snemmt að vera að hugsa um jólaskraut en for kræing át lád, á þessum tíma er ég venjulega byrjuð að stelast í jólalögin (er meira að segja að hlusta á jólalög núna, enginn kemur manni í múdið eins og Mariah Carey, eins og hún er leiðinleg allar aðrar árstíðir) og í fyrsta skiptið á ævinni bý ég í "eigin" íbúð og ofbýð engum með þessum mikla jólaofsa mínum. Ég bý reyndar það nálægt vinnunni að ef að þau teygja hausinn út um gluggann sjá þau húsið mitt, en þau vita náttlega öll að ég er léttgeggjuð, þannig að með því að setja seríur í gluggann í fyrra lagi er ég bara að viðhalda orðspori mínu, iff jú vill haha.

Ég er alveg uppgefin eftir frekar erfiðan dag í vinnunni, fólki finnst bara stundum svo gaman að rífast. Ég ákvað eftir þennan langa dag að bjóða Möggu með mér í ljós og eftir það fórum við á tælenska staðinn Krua Thai á Tryggvagötu, þetta var svona rúmmeits kvalötí tæm, svona rétt áður en hún fer. Ég er búin að ákveða það að ég gæti bara alveg lifað á tælenskum mat það sem eftir er ævinnar, þetta er náttlega matseld sem myndi sóma sér vel í eldhúsi himnaríkis, og ég væri bara alveg til í að fá mér tælenska aupair, bara til að elda ofan í mig, það er bara vonandi að Steinbjörn kunni að elda tælenskt ( hvurslags eiginlega kokkur er það annars sem kann ekki að elda tælenskt, en til vonar og var gef ég honum kannski bara bók um tælenska matseld í jólagjöf hahaha)

Ég ætlaði að reyna að hitta Guðnýju í kvöld á brennslunni, af því ég hef ekki hitt hana síðan árið sem olían fraus og af því að hún er að fara norður á föstudaginn og verður í 2 VIKUR (talandi um að skilja mann eftir í sárum) en hún var vant við látin þessi elska, þannig að ég verð bara að a) bíða þolinmóð eða b) fara að tala við kryddjurtina í eldhúsglugganum og kalla hana Guðnýju.
Annars er hann Gummi minn ágætis söbstitúd á meðan, en strákar kunna bara ekki að blaðra eins og stelpur hahaha.

Ég verð endilega að fara að hitta hann Erling minn til að fá hann í það mikilvæga verkefni að setja inn gestabók hingað inn, þannig að ég geti nú fylgst með því hvort einhver sé inni í hausnum á mér og hvenær þá.

En jæja, nú ætla ég að fara að hætta þessu bulli og reyna að halda áfram að gera ekki neitt, en þangað til næst..........

Hrafnhildur,
Hinn tælenski jólastrumpur.

þriðjudagur, nóvember 05, 2002

Jæja, þá er ég komin í borgina aftur eftir alveg hreint brilljant helgi fyrir norðan:)
Afmælið hans pabba var alveg ótrúlega skemmtilegt og vel heppnað og skemmtiatriðin voru náttlega óbærilega fyndin, eins og við mátti búast þegar pabbi er annars vegar. Dægurlagapönkhljómsveitin Húfa voru að mínu mati með besta skemmtiatriðið, og svona nótabene, ef einhverju ykkar langar til að vera með góða hljómsveit með geðveikt stend-öpp inn á milli laga, þá skulið þið tala við Hreinsa og Rögga, ég er viss um að einhverjir hafi verið komnir með gyllinæð af hlátri þarna inni í salnum. Síðan voru allar ræðurnar sem voru haldnar mjög skemmtilegar, og atriðið þar sem pabbi fékk lifandi grís og þrjár hænur í afmælisgjöf var alveg brjálæðislega fyndið, að vísu argaði svínið eins og brjáluð kvenréttindakelling og allir héldu að það væri af því að hann var hræddur, en svo komst ég að því að grísir arga af frekju!!!!!

Én ég hef ekki tíma til að skrifa meira núna þannig að.......

Hrafnhildur,
Með hláturkrampa í maganum.

föstudagur, nóvember 01, 2002

Well hello.

Þá er ég komin í víking norður í land, og er að fara að gera salinn tilbúinn fyrir fimmtugsafmælið hans pabba sem verður annað kvöld. Það er alltaf jafn gott að koma til mömmu og pabba, sem bæ ðö vei fékk súperknús frá mér af því að ég var ekki búinn að sjá hann svo lengi. Það er líka æði að komast út fyrir borgina miklu annað slagið og anda að sér fersku sveitalofti þó að ég gæti ekki hugsað mér, allavega ekki í augnablikinu, að flytja út úr 101 Reykjavík. Ég fór vanalega rúntinn í dag, kíkti inn á Ábæ (sem er lókal sjoppan), Kaupfélagið (þar sem maður þekkir hvert einasta smetti) og tískuhúsið þar sem hún Anna Sigga nær alltaf að selja mér eitthvað og í þetta skipti prangaði hún inn á mig peysu.

Við Margrét systir ætlum að fá okkur aðeins í glas á eftir, þegar við erum búnar að redda salnum, af því við ætlum að vera með óvænt atriði í afmælinu og vorum að undirbúa það í dag, en komumst að því að við værum miklu fyndnari ef við værum undir áhrifum einhvers sterkara en koffíns, en ef ég þekki okkur rétt eigum við nú eftir að fá okkur meira en aðeins...... og svo verður örugglega kíkt á ANNANHVORN barinn hérna og skjögrað svo heim einhverntímann í nótt, blindfullar og vettlingalausar á milli gíra, ég búin að fara á trúnó við aðra hverja manneskju þarna inni haha.


Já ég er eiginlega bara búin að komast að þeirri niðurstöðu að það er ágætt að heimsækja krókinn annað slagið, fá að kúra sig utan í foreldrana og sjá að manns sé saknað :)

Ég var að tala við hann Enok, (sem er líka fyrir norðan og á leiðinni á rjúpu, vonum að hann týnist ekki hahaha) hann var að taka upp úr töskunni sinni og það voru öll fötin hans útötuð í sinnepi (Enok, maður pakkar ekki sinnepi og hreinum þvotti saman í tösku!!!) þannig að það er tvennt í stöðunni fyrir greyið: borða fötin sín ofan á pulsu eða gerast franskur þangað til hann kemst í þvottavél hahaha.

En jæja, þangað til næst.

Hrafnhildur,
Í sinnepslausum fötum.